Jólin voru ljúf

DESEMBERDAGAR 2012

24-31

Jólin voru ljúf og skemmtileg hjá okkur, en því miður var ekki jafn ljúft og ánægjulegt hjá öllum á landinu. Veðurofsinn kom alls staðar við, en verst var norðvestanvert og mjög slæmt einnig á norðan og eftir til austurlands. Snjórinn hlóðst niður og víða komu snjóflóð, en björgunarmenn voru á varðbergi og sem betur fór varð enginn mannskaði.

Það var kalt og stundum mjög hvasst, en ekki spillti það jólastemningunni hér á suðvesturhorninu. Fjölskyldan var hér á Fornuströnd á aðfangadagskvöldið, og jólakaffið, sem við Svana skiptum á milli okkar, var nú þetta skiptið hjá okkur á jóladag. Fjölskyldan lagði til lystilegar góðgerðir, og allt var svo skemmtilegt og vel heppnað.

Það var mjög kalt á gamlársdag, en fallegt úti. Oftast hefur gamlársdagur verið hávaðasamur, en í þetta sinn entust menn ekki lengi að norpa í kuldunum við að skjóta upp flugeldum, svo að nóttin var bara allgóð.

Og nú er árið 2012 liðið.

Vetrarsólstöður gleðja

DESEMBERDAGAR 2012

15.12. LAUGARDAGUR

Talsvert var hvasst og napurt í dag, en engin úrkoma. Hitinn mældist 1°.

Hér var fjör á Fornuströnd, þar sem stórfjölskyldan vann að laufabrauðsgerð. Laufabrauðið er alveg ómissandi um jól og þykir öllum gott. Aðeins Katrín gat ekki verið með okkur, hún var á vaktinni á Dýraspítalanum. En allt gekk hratt og vel, enda dugnaðarforkar að verki. Okkur finnst öllum gaman að þessu stússi.

16.12. SUNNUDAGUR

Veðrið var nokkuð stillt og þægilegt. Sólin skein, en hitinn komst ekki yfir frostmark.

Jólatónleikar voru hjá Margréti Þóru í Melaskólanum í dag. Alltaf gaman að hlusta á krakkana þar. Kristín spilaði Hey Jude ljómandi vel, og einnig um Jólasveinana, sem ganga um gólf, og allt gekk vel hjá henni. Henni fer stöðugt fram og þykir þetta mjög gaman. Margrét hefur gott lag á krökkunum og það skiptir miklu. Ekki var verra að Sigrún og Pálmi buðu okkur í þetta líka fína jólakaffi eftir tónleikana, foreldrum Sigrúnar, sem koma oftast á þessa tónleika, og nú voru líka foreldrar Axels, sem er góður á píanóinu. Skemmtilegt fólk sem gaman er að hitta.

17.12. MÁNUDAGUR

Í morgunsundinu var -3° frost, en það var lítil hreyfing á veðrinu. Hlýtt og sallafínt í lauginni. Veðrið var reyndar bara ágætt allan daginn. Það munar svo miklu að veðrið sé stillt.

18.12. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætt veður hefur verið í dag þótt frostið væri -5 stig og ég þurfti mikið að skafa bílrúður. Sólin skein og veröldin var skínandi falleg.

19.12. MIÐVIKUDAGUR

Í gær var -5 stiga frost, en í dag var hins vegar 5 stiga hiti mestallann daginn. Vindurinn var hvass, og svolítið var rigningin að láta að sér kveða. Og nú hefur hitinn enn hækkað og er kominn upp í 9 stig!

20.12. FIMMTUDAGUR

Enn er þetta ágæta veður. Engin læti í veðrinu og mesti hitinn mældist 8°.

Ég hef lítið æst mig við undirbúning fyrir jólin. Fór í svolítinn leiðangur í dag og fannst bara gaman að sjá fólkið sem er á sprettinum um Kringluna.

21.12. FÖSTUDAGUR

Vetrarsólstöður eru í dag, sem segir okkur að daginn er farið að lengja. Það er merkilegur dagur og gleður að nú mun birta smátt og smátt.

Verðið var ágætt í dag. Mestur hiti mældist 7°.

Við Dóra fórum í Kringluna að sækja síðustu jólagjafirnar og skemmtum okkur vel! Margt skemmtilegt þar að sjá. Og nú er bara að bretta upp ermar og gera klárt fyrir jólin.

22.12. LAUGARDAGUR

Ágætt veður í dag, en með kvöldinu er tekið að hvessa. Hitinn varð mestur hér kl. 6°.

Um fimmleitið kom heldur en ekki bobb í bátinn, rafmagnið sveik og allt varð svart. Sáum ekki baun og þreifuðum okkur eftir kertum og eldspýtum, en ekki bjargaði það neinu, rafmagnið ansaði okkur ekki. Tveir góðir menn komu hver á eftir öðrum til bjargar og veitti ekki af. Stofnöryggið reyndist ónýtt, Hólmsteinn hafði upp á öryggum og Sigurður setti allt í gang. Snillingar báðir.

23.12. SUNNUDAGUR

Nú er það Þorláksmessan sem kætir, líklega þó aðallega að nú er mesta annríkinu lokið. Veðrið var ágætt í dag, og mestur hiti mældist 5°.

Breki eða Jónsi bóndi?

DESEMBERDAGAR 2012

8.12. LAUGARDAGUR

Rigning og hvasst í morgun, en skárra þegar dagur leið. Mestur hiti mældist 1°.

Kristján var svo vænn að taka rispu með okkur að lagfæra eitt og annað með iPad-inn, sem er talsvert frábrugðinn gömlu tölvunni minni. Nú get ég loks sent frá mér skilaboð ef þörf er á, og ýmislegt fleira er nú vonandi orðið betra. Breki er líka snjall í tölvunotkun og hjálpar mér líka að læra betur á þetta.

9.12. SUNNUDAGUR

Ekki komst hitinn hærra en í 1°. En veðrið var annars ágætt, og morgunlýsingin var svo falleg að ég gat ekki hætt að horfa á dýrðina.

Við hér á Fornaströndinni stormuðum á Norðurpólinn, þar sem margt skemmtilegt gerist. Og nú fengum við að sjá nokkra krakka í Snælandsskóla sýna leikrit sem þau höfðu sjálf búið til. Þar með var Breki, sem skemmti okkur vel. Sagðist vera Jónsi bóndi, en var reyndar njósnarinn mikli!

10.12. MÁNUDAGUR

Sæmilegt veður í dag. Mestur hiti mældist 2° eftir hádegi, en um kvöldið hækkaði hitinn upp í 3° og talsverð rigning steyptist yfir.

11.12. ÞRIÐJUDAGUR

Merkilega hlýtt í dag, hitinn náði 5° hér og það telst gott á þessum tíma.

Nóg er að gera þessa dagana, en ég leyfi mér nú samt að lesa bækur. “Jesúsa – óskammfeilin, þverúðug og skuldlaus” kallast bókin. Elena Poniatowska er sögð ein af merkustu rithöfundum í Ameríku, fyrst og fremst í Mexíkó. Sagan um hana Jesúsu er sannarlega merkileg og sérstök. Hollt að kynna sér sitt af hverju í fjarlægum ranni. Jesúsa gleymist ekki svo glatt.

12.12. MIÐVIKUDAGUR

Ágætt veður í dag. Svolítið sólskin, og mestur hiti mældist 3°. Og nú blika ljósin í Bláfjöllum, þar sem skíðafólkið skemmtir sér.

13.12. FIMMTUDAGUR

Fallegt er út að líta, en býsna kalt þennan daginn. Talsverður vindur og hitinn um frostmark.

14.12. FÖSTUDAGUR

Enn er þetta ágæta veður hér, fallegt en kalt. Heiðríkt, sólskin, dálítill vindur. Mestur hiti mældist 1° um miðjan daginn, annars hóflegt frost.

Loksins hitnaði í kotinu

DESEMBERDAGAR 2012

1.12. LAUGARDAGUR

Hvasst og kalt í dag og verður verra í nótt. Hiti mældist allt að 4°, en ekki dugði það til að ylja fólki.

Siggi snillingur, réttu nafni Sigurður Guðjónsson rafvirki, hefur verið að lagfæra sitt af hverju í eldhúsinu okkar og víðar. Í dag fékk hann Pálma til aðstoðar og þeir hættu ekki fyrr en allt var komið í fínt lag. Þvílíkur munur!

2.12. SUNNUDAGUR

Vaknaði við rok og rigningu, eins og veðurspáin hafði sagt okkur. Ég kúrði mig um stund. Spratt svo upp til að vekja Sindra og Breka, sem ég ætlaði að senda í skólann í tæka tíð. Sem betur fór var Jónas á vappi og gat komið því í minn haus að nú væri sunnudagur og óþarfi að trufla nætursvefn blessaðra piltanna. Eitthvað hafði mig dreymt skringilega. Þótti þetta góður brandari.

3.12. MÁNUDAGUR

Ótrúlega fallegur og ljúfur dagur. Stillt veður og glampandi sól, svo lengi sem hún fékk að gleðja okkur. Mestur hiti mældist 2°.

Við erum ákaflega ánægð með eldhúsið sem búið er að laga. En næsta mál er ekki síður nauðsynlegt að lagfæra, og fór dagurinn í að finna annan snilling til að lækna forhitara, sem eru að bregðast okkur. Sigurður benti á góðan mann, sem ætlar að koma og skoða vandamálið.

4.12. ÞRIÐJUDAGUR

Fallegur og notalegur morgunn, og veðrið reyndar ágætt allan daginn. Mestur hiti mældist 2°.

Ég beið spennt eftir Júlíusi Einarssyni, sem sagðist reyna að koma við hjá okkur og athuga með forhitara, krana, ofna og fleira. Júlíus kom um kvöldið og reyndist jafn klár og Sigurður hafði sagt okkur, og nú er kuldavandinn leystur í bili. Það hitnaði loks í kotinu. Frekari lagfæringar verða að bíða ögn.

5.12. MIÐVIKUDAGUR

Rigning og hvassviðri. Lítils háttar slydda síðdegis. Skánaði heldur um kvöldið. Mestur hiti mældist 2°.

6.12. FIMMTUDAGUR

Frábært veður, logn, heiðríkt og sólskin svo lengi sem hægt var að njóta þess. Hiti var þó aldrei meiri en 1°. Ljósin blika í Bláfjöllum, væntanlega margir loks á skíðum.

Átti langt og skemmtilegt spjall við hana Möllu mína (Málmfríði), og var fegin að heyra hvað hún virðist spræk og hress. Hún er ekki mikið að kvarta þótt skrokkurinn sé farinn að geri henni erfitt fyrir. Kollurinn er í góðu formi og margt sem hún hefur áhuga á. Merkileg kona Málmfríður Sigurðardóttir.

7.12. FÖSTUDAGUR

Mikið hefur rignt í dag, en hitinn var mældur mestur 5° og engin ástæða til að kvarta yfir veðrinu.

Eilíft gluggaveður

NÓVEMBERDAGAR 2012

24.11. LAUGARDAGUR

Notalegt í sundlauginni og góður tími til að spjalla við Svönu og Tótu í heita pottinum. Um leið og við komum þaðan dembdist svo rigningin yfir okkur. Að öðru leiti var veðrið ágætt þennan daginn.

25.11. SUNNUDAGUR

Góður dagur. Ágætt veður, þótt ekki var neinn hiti að ráði.

Alltaf gaman að fá fjölskylduna í “bröns”, eða öllu heldur dagverð eða dögurð á íslendsku. Katla og Kolbeinn eru í vikuheimsókn, þau eru bæði í námi í Bandaríkjunum svo að við sjáum þau sjaldan. Þau áttu erindi hingað, en geta ekki verið um jólin, svo að þetta voru hálfgerð jól í dag. Að auki var haldið upp á afmæli Breka, sem varð reyndar 12 ára 14. nóv., en fagnaðurinn dróst svolítið. Og nú var sunginn söngurinn eini og góðar kökur snæddar. Allt var þetta afar skemmtilegt.

26.11. MÁNUDAGUR

Skikkanlegt veður. Mestur hiti 3°.

27.11. ÞRIÐJUDAGUR

Enn er fallegt út að líta um glugga, en kalt er að vanda. Mestur hiti mældist 2° í dag, og nú í kvöld er hitinn kominn upp í 3°!

“Forsetinn er horfinn” heitir bók eftir Anne Holt. Held að hún sé örugglega norsk og þykir harla góð. Ég get alveg tekið undir það. Var að enda þessa bók og þótti hún spennandi, reyndar all rustaleg og andstyggileg með köflum. Anne Holt hefur heilmikið hugmyndaflug.

28.11. MIÐVIKUDAGUR

Kalt og hvasst. Mestur hiti mældist 2°. Gluggaveðrið er oftast við hið sama.

29.11. FIMMTUDAGUR

Mestur hiti mældist 5° og var það kl. 6 að morgni! Það rigndi talsvert í dag, en vindurinn var skikkanlegur og veðrið þar með bara ágætt.

Spiluðum bridds hjá Sólrúnu og Þórði. Alltaf gaman að spila bridds, en í þetta sinn fékk ég ferlega vond spil og tapaði stöðugt.

30.11. FÖSTUDAGUR

Sæmilegt veður þennan síðasta nóvember. Veður var fallegt og stillt fram eftir degi, en hvessti nær kvöldi. Hiti mældist ekki hærri en frostmark.

Frost og kuldi

NÓVEMBERDAGAR 2012

15.11. FIMMTUDAGUR

Sundlaugin okkar á Seltjarnarnesi er nánast alltaf hlý og góð, hvernig sem viðrar. En rigning og hvassviðri er ekki alltaf jafn notalegt. Það var kalt í morgun. Í dag mældist mestur hiti um 4°.

Það gladdi mig að sjá músarrindilinn í dag, vonandi er það sá sami sem var svo fjörugur síðasta vetur.

16.11. FÖSTUDAGUR

Ekki var mikið um hlýindin í dag. Hitinn fór ekki yfir frostmarkið og komið yfir -2° að kvöldinu. En frostið er meira víða annars staðar.

17.11. LAUGARDAGUR

Ekki hlýnar hér, en veðrið er svo sem sæmilegt. Verra er það fyrir norðan, hvassviðri, mikil snjókoma, víða ófært, bílar fastir í fönn og snjóflóð hafa fallið.

18.11. SUNNUDAGUR

Fallegt er út að líta. Himinninn er bjartur og sólin skín, en vindurinn er nokkuð hvass. Hlýrra varð ekki en nálægt frostmarki. Fyrir norðan og austan kyngir snjónum niður.

19.11. MÁNUDAGUR

Fallegur dagur í dag, en ekki er hann hlýr frekar venju. Frostið var mest -2°. Tungl og stjörnur spóka sig á himninum í kvöldkulinu.

Enn eru björgunarsveitir á varðbergi vegna hugsanlegra snjóflóða, og enn kyngir snjónum niður fyrir norðan.

20.11. ÞRIÐJUDAGUR

Veðrið var sæmilegt í dag, en kalt. Hiti fór upp í 1°. Enn snjóar fyrir norðan.

“Hreint út sagt” nefnist bókin sem ég var að ljúka. Svavar Gestsson segir þar ævisögu sína og sparar ekki orð né upplýsingar. Margt er þar athyglisvert, sumt kunnuglegt, en reyndar margt sem kom mér sannarlega á óvart. Við kvennalistakonur vorum talsvert út af fyrir okkur, sóttumst ekki eftir aðstoð né kennslu þessi ár okkar á Alþingi. Árin þau, 1983-1999, vorum við satt að segja önnum kafnar við okkar störf og á þann hátt sem við töldum réttast. Vorum a.m.k. ekki mjög forvitnar um það hvernig aðrir höguðu sér. Ég sé ýmislegt í bók Svavars þar sem upplýst er hvernig tekið var á stjórnmálunum, í hörðum deilum og oftar en ekki í pukri. Vafalaust er svo enn. Slíkt minnir á köflum sem lesa mátti í ævisögu Gunnars Thoroddsen. Í bók Svavars hafði ég mest gaman af þar sem segir frá æsku hans, foreldrum hans og systkinum og því lífi sem þar var lifað. Bókin er vel skrifuð, harla lífleg og skemmtileg.

21.11. MIÐVIKUDAGUR

Kalt og hvasst sem oftar.

22.11. FIMMTUDAGUR

Ágætt veður í dag. Svolitil rigning, sem kom sér bara vel. Hitinn mældist heil 2°. Og máninn er glaðhlakkalegur hér ofan fjalla. Kannski er hann svona kátur að sjá allt jólaskrautið sem nú lýsir upp vítt og breytt um landið.

23.11. FÖSTUDAGUR

Þokkalegt veður. Mestur hiti í dag mældist 3°. Lítilsháttar rigning.

Spenna og óhugnaður

NÓVEMBERDAGAR 2012

8.11. FIMMTUDAGUR

Mestur hiti dagsins var sagður 4°. Það dugði lítið gagnvart kulda og hvassviðri.

9.11. FÖSTUDAGUR

Enn er hvasst og kalt. Esjan er fannhvít nær niður að sjó. Mestur hiti 3° í dag. Veðrið fer versnandi og verður svo til sunnudagsins.

10.11. LAUGARDAGUR

Ónotalegt veður, talsvert hvasst og -2 frost að deginum. Sólin var reyndar svo almennileg að skína í svolítin tíma. Verra er veðrið víða annars staðar. Norðanstormur og snjókoma mest fyrir norðan og erfið færð, sums staðar algjör ófærð.

11.11, SUNNUDAGUR

Sæmilegt veður fram eftir degi, en smám saman herti vind. Mestur hiti mældist 4°.

Um kvöldið héldu Skildingarnir veislu í tilefni af 15 ára afmæli Auðar Pálmadóttur. Afmældið er reyndar 12. nóvember, þ.e. á morgun, en hentugra að nota sunnudaginn. Trakteringar voru að venju góðar og alltaf jafn gaman að hitta fólkið. Auður er dugleg í fimleikum, hefur stundað það í mörg ár. Þessa dagana er hún svolítið hölt eftir miklar listir í fimleikum, en henni batnar vonandi fyrr en varir.

12.11. MÁNUDAGUR

Vindurinn blés mikinn í nótt, en var þó ekki eins slæmur og hafði verið búist við. Talsvert rigndi í dag. Mestur hiti mældist 6°.

13.11. ÞRIÐJUDAGUR

Þokkalegt veður í dag. Mestur hiti mældist 5°.

Jussi Adler-Olsen þykir drjúgur með glæpasögurnar, og ekki neita ég því. Flöskuskeyti frá P. heitir nýjasta sagan, sem ég var að ljúka við. Mögnuð og afar spennandi saga. Stundum svo óhugnanleg að mig hryllir við. En sagan er góð.

14.11. MIÐVIKUDAGUR

Rigningin stjórnaði veðrinu í dag. Mestur hiti mældist 5°.

Breki Hrafn er tólf ára í dag. Dóra, Sindri og Ómar ætluðu að borða með afmælisbarninu á uppáhaldsstaðnum, Ítalíu. En það verður að bíða. Pestir af ýmsu tagi spilla hvenær sem þeim þóknast. Breki tók því með ró og spekt og skemmti sér við það sem hann fékk frá sinum nánustu.

Fólk tókst á loft

NÓVEMBERDAGAR 2012

1.11. FIMMTUDAGUR

Hvassviðrið hélt manni vakandi í nótt, en var ögn hógværari um miðjan daginn. Og ekki nóg með það, sjálf sólin skein! En hitinn mældist aðeins við frostmark þennan daginn. Hvassviðrið magnaðist með kvöldinu.

Sólrún og Þórður komu til okkar að spila bridds í kvöld. Fórum rólega í það, því mörgu þurfti að segja frá.

2.11. FÖSTUDAGUR

Enn meira hvassviðri vakti mig nokkrum sinnum í nótt, og það versnaði fram eftir degi. Mikið gekk á í norðurhluta Seltjarnarnes og sama mátti segja um lætin í Grafarvogi þar sem Pétur og Marcela búa. Sjórinn rauk og þeytti gusuganginum upp á götur. Ekki beint notalegur dagur, en við lentum ekki í neinum vandræðum.

Björgunarmenn höfðu mikið að gera á höfuðborgarsvæðinu, þakplötur fuku, gámar fuku, og margt þeyttist um sem varð að bjarga. Allmargir urðu fyrir slysum í óveðrinu, flestir sem hreinlega tókust á loft, urðu fyrir beinbrotum o.s.frv.

3.11. LAUGARDAGUR

Óveðrið hefur farið minnkandi smám saman, en ekki er fram undan nein blíða. Það blés mikinn um nóttina og hélt sér við það fram eftir öllum degi, en skánaði um kvöldið.

4.11. SUNNUDAGUR

Loks var friðsamlegt um nóttina, og mikið var nú fallegt út að líta að morgni. Heiðríkt var á himninum, vindurinn var til friðs, og sólin skein fram eftir degi. Mestur hiti mældist 3°. En nú eru öll fallegu blómin mín horfin.

5.11. MÁNUDAGUR

Rigning réði veðrinu í dag. Hiti mældist mestur 7°, og veðrið var í rauninni ágætt.

Og nú lauk ég nýrri bók eftir Henning Mankell. Minning um óhreinan engil, heitir sú bók, en engillinn, hún Hanna, átti mörg nöfn. Hún þvældist víða og komst í furðulegar aðstæður, sem hún átti bágt með að skilja og ráða við. Mjög sérstök bók, sem mér þótti skemmtileg aflestrar.

6.11. ÞRIÐJUDAGUR

Nokkuð hvasst veður í dag og hvessti verulega nær kvöldinu. Það rigndi hressilega mestallan daginn. Rigningarrokið gerði okkur það gagn að þvo gluggana og bílana, sem voru þaktar salti eftir óveðrið mikla, svo að sást ekki út. Hiti mældist mestur 5° í dag.

7.11. MIÐVIKUDAGUR

Sæmilegt veður í dag, en hitinn náði mest aðeins 3 stig örstutta stund. Gluggaþvottur rigningameistarans hefði mátt vera betri, en nú sjáum við altént sæmilega út um gluggana.

Skáldið Sturla

OKTÓBERDAGAR 2012

27.10. LAUGARDAGUR

Veðrið var heldur hryssingslegt í dag. Sólin faldi sig og öðru hverju rigndi. Mestur hiti mældist 3°. Og nú er máninn í fullum skrúða að kvöldi.

Ekki er alltaf jafn ánæglulegt að lesa fréttablöð og stundum bara hundleiðinlegt. Var að lesa Fréttatímann í dag og fann þar reyndar margt gott. Grein Jóns Kalman Stefánssonar rithöfundar gladdi mest. “Alþingi – Íslands óhamingja?” spyr sig Jón í upphafi greinar. Og í greinarlok segir hann: “Þingmaður sem hundsar vilja þjóðar á ekki heima á alþingi Íslendinga”. Honum og mörgum öðrum blöskrar framganga margra þingmanna. Þessa grein ættu sem flestir að lesa – og þingmenn sem allra flestir.

28.10. SUNNUDAGUR

Fagur var dagurinn, heiðríkur himinn og sólskin. Hitinn mældist mest 3°, en vindur var lítill. Nær kvöldi lokuðu skýin fyrir heiðríkjuna.

29.10. MÁNUDAGUR

Þokkalegt veður í dag, en lítið sást til sólar. Vindur var lítill. Mestur hiti mældist 5°.

Fátt er betra en að lesa bækur, þótt ekki séu allar jafn góðar. Var að ljúka nýjustu bók Einars Kárasonar, þriðju Sturlungasögu hans. Óvinafagnaður var sú fyrsta, önnur Ofsi, og nú er það Skáldið, sem sögð er síðasta Sturlungasaga Einars. Skáldið Sturla Þórðarson er aðalpersónan, en margir koma við sögu eins og nærri má geta. Ekki vantar manndrápin og illskuna, en saga Einars og Skáldsins er harla góð.

30.10. ÞRIÐJUDAGUR

Í dag var nokkuð hvasst og kalt. Það snjóaði lítilsháttar hér, en fyrir norðan og víðar snjóaði talsvert mikið. Mestur hiti mældist 2°.

31.10. MIÐVIKUDAGUR

Ekki get ég lofað veðrið þennan daginn hér, en það verður miklu verra næstu daga samkvænt vegurfræðingum. Verst er fyrir norðan og austan. Hér var talsvert hvasst, en það er nú smámál miðað við rokið og snjóinn aðallega fyrir norðan og austan. Varað er fyrir versnandi veðri um landið norðaustanvert, miklum vindi, snjókomu og skafrenningi.

Skjáftar fyrir Norðan

OKTÓBERDAGAR 2012

20.10. LAUGARDAGUR

Fallegur dagur. Lítill vindur. Heiðríkt og sólskin. Mestur hiti 5°.

Kátt var í koti með “börnum” okkar og barnabörnum fram eftir hádegi. Þetta var glaðlegt afmælispartí og mikið gott á borðum. Yndislegur dagur.

Í dag er kosið um þjóðaratkvæði sem stjórnlagaráð vann að um hálft árið. Það hefur kostað deilur og þras. Spennandi að vita hvað kemur út úr atkvæðagreiðslunni.

21.10. SUNNUDAGUR

Ágætt veður í dag, sólríkt og lítill vindur. Mestur hiti 5°.

Í nótt urðu ótal jarðskjálftar norður af Siglufirði, sá stærsti 5,6 að stærð. Skjálftar fundust víða, m.a. í Reykjadal. Og enn skjálfar öðru hverju fyrir norðan.

Jónas kom mér aldeilis á óvart á afmælinu og færði mér 1Pad, sem mörgum þykir það besta í þessum bransa. Ég er nú orðin svo vön gömlu tölvunni að nú þarf að læra ýmislegt nútímalegt. Kristján þekkir þetta og hjálpar mér við að ná áttum. Spennandi!

Þjóðaratkvæðagreiðslan tókst nokkuð vel, en sjálfstæðismenn eru fúlir. Er nú eftir að vita hvort þingmenn taka mark á kjósendum.

22.10. MÁNUDAGUR

Veðurfræðingar spáðu rigningu hér í allan dag, en hér á Seltjarnarnesi sáum við ekki dropa af himni. Mestur hiti mældist 5°.

Ég glímdi svolítið við 1Paddinn í dag og hef gaman af, en þegar ég þarf að gera eitthvað í snarheitum gríp ég í gömlu tölvuna.

23.10. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætis veður í dag, stillt, en lítið sást til sólar. Mestur hiti mældist 5°.

24.10. MIÐVIKUDAGUR

Ágætt veður. Mestur hiti 6°.

Í dag minnumst við Kvennafrídagsins 24. október árið 1975. Ég hafði ekkert endilega ætlað mér að taka þátt í kvennafríinu, sem svo var kallað. En eitthvað hrærðist innra með mér sem varð til þess að ég stökk af stað og hentist upp í strætó til að komast niður í miðbæinn og sjá hvað konurnar væru að brölta. Strætisvagninn þyngdist æ meira þegar konurnar fylltu vagninn á hverri stoppistöð, glaðværar og kátar. Það var stórkostleg að koma niður á Lækjartorg, þar sem fjöldi kvenna fyllti torgið og göturnar umhverfis. Stemningin var sérstök, skemmtilegar ræður og söngur. Gleðin var mikil og hvatningin uppörvandi. Þetta var ógleymanlegur dagur.

25.10. FIMMTUDAGUR

Veðrið hefur verið heldur þungbúið í dag og öðru hverju rigndi. Mestur hiti mældist 4°.

Íslenska kvennalandsliðið keppti við kvennalandslið Úkraínu á Laugardalsvellinum í kvöld. Þær fengu svolitla rigningu á sig, en þessar dugnaðar konur létu það ekki trufla sig. Okkar konur sigruðu Úkraínu með glæsibrag og komast þar með í lokakeppni Evrópumótsins, sem verður í Svíþjóð næsta sumar. Gaman að sjá hvað áhorfendur voru margir í þetta skipti. Það sannar væntanlega að sífellt fleiri kunna að meta snilli kvennanna!

26.10. FÖSTUDAGUR

Sæmilegt veður, en mestur hiti var aðeins 3°.